Á þessum þrettánda og síðasta degi jóla gefst tími til að setjast niður, sötra kaffi og líta yfir farinn veg. Viðtökur Galdraskræðu voru framar okkar björtustu vonum sem hlýtur að gefa til kynna að útgáfan hafi svalað þorsta Íslendinga eftir heildstæðri og fallegri galdrabók. Aðeins nokkur eintök eru eftir af upplaginu sem gleður okkur mjög enda hafa allir getað nælt sér í skræðu sem vildu.
Þó að þetta verkefni sé nú að baki höfum við á engan hátt sagt skilið við norræna galdra og íslenska galdramenningu. Við munum að sjálfsögðu fylgja bókinni enn frekar eftir og halda áfram að vekja athygli á efni hennar og höfundi. Þar að auki höfum við nú þegar hafist handa við nokkur ný verkefni – sem tengjast Galdraskræðu beint og óbeint – sem munu líta dagsins ljós á komandi ári. Sem fyrr liggur metnaður okkar fyrst og fremst í því að gefa út vandaðar og fallegar bækur til að fegra bókaskápana ykkar enn frekar.
Við viljum þakka öllum vinum okkar og viðskiptavinum fyrir að eiga allan þátt í því að þetta þriðja útgáfuár Lesstofunnar varð eins gott og raun ber vitni. Það er ekki sjálfgefið að lítil bókaútgáfa þrauki svo lengi á þessum markaði. Jafnframt viljum við þakka Arnari Fells Gunnarssyni, hönnuði skræðunnar, og Þórarni Eldjárn, höfund formála hennar, fyrir gott og lærdómsríkt samstarf sem við getum fullyrt að hafi gert okkur að betri útgefendum.
Gleðilegt nýtt ár, kæru vinir!
Lesstofan