viðar hlýtur viðurkenningu hagþenkis

Viðar Hreinsson hlaut í dag viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir bók sína Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Viðar veitti viðurkenningunni móttöku við hátíðlega athöfn á Landsbókasafni Íslands fyrr í dag en hún felst í viðurkenningarskjali og fjárhæð sem nemur einni milljón króna.

Í áliti viðurkenningarráðs kemur fram að bókin sé „alþýðleg og aðgengileg“, án þess að „slakað sé á fræðilegum kröfum.“ Þar segir einnig að Viðar dragi upp í bókinni „myndir af því umhverfi sem ól af sér fræðimanninn Jón lærða og tengir athuganir hans og skrif við evrópska vísindasögu.“ Ráðið segir að bókin sé þar að auki „óvenjufallegur prentgripur og forlaginu Lesstofunni til mikils sóma.“

Við í Lesstofunni óskum Viðari innilega til hamingju með viðurkenninguna en hann er svo sannarlega vel að henni kominn.