myndir frá sýningaropnun og útgáfufögnuði runes

Síðastliðinn laugardag fögnuðum við útgáfu bókarinnar Runes: The Icelandic Book of Fuþark, sem kemur út undir merkjum The Icelandic Magic Company, útgáfuheiti Lesstofunnar, og opnun samnefndrar sýningar í Safnahúsinu á Hverfisgötu. Menningarvefur RÚV fjallaði um sýninguna og tók viðtal við hönnuð bókarinnar, Sigga Odds.

Við erum ótrúlega ánægð og stolt af bókinni og samstarfinu við Sigga og Teresu en hún skrifaði texta bókarinnar sem er í senn aðgengilegur og fræðilegur.

Við þökkum góðar viðtökur!

Myndir: Þorsteinn Surmeli | surmelism.com

viðar hlýtur viðurkenningu hagþenkis

Viðar Hreinsson hlaut í dag viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir bók sína Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Viðar veitti viðurkenningunni móttöku við hátíðlega athöfn á Landsbókasafni Íslands fyrr í dag en hún felst í viðurkenningarskjali og fjárhæð sem nemur einni milljón króna.

Í áliti viðurkenningarráðs kemur fram að bókin sé „alþýðleg og aðgengileg“, án þess að „slakað sé á fræðilegum kröfum.“ Þar segir einnig að Viðar dragi upp í bókinni „myndir af því umhverfi sem ól af sér fræðimanninn Jón lærða og tengir athuganir hans og skrif við evrópska vísindasögu.“ Ráðið segir að bókin sé þar að auki „óvenjufallegur prentgripur og forlaginu Lesstofunni til mikils sóma.“

Við í Lesstofunni óskum Viðari innilega til hamingju með viðurkenninguna en hann er svo sannarlega vel að henni kominn.

takk fyrir árið 2016!

Kæru vinir, við óskum ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári. Við þökkum fyrir árið sem er að líða sem hefur verið, ykkur að segja, það besta frá stofnun Lesstofunnar. Og við getum fullyrt að 2017 verður ekki síðra. Við hlökkum til að deila með ykkur þeim verkefnum sem eru á prjónunum.

Það sem stóð upp úr á árinu er vafalaust útgáfa á stórvirki Viðars Hreinssonar Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Til að mæta metnaði Viðars gerðum við allt hvað við gátum til að gera útgáfuna sem glæsilegasta. Við fengum til liðs við okkur fagfólk á hverju sviði, allt frá prófarkalestri til hönnunar. Þökkum við hópnum, vinum Jóns, kærlega fyrir samstarfið. Við munum minnast ársins 2016 með mikilli hlýju og þakklæti.

Lesstofan

Lesstofan – Jón lærði og náttúrur náttúrunnar

viðar hreinsson hlýtur tilnefningu til íslensku bókmennta-verðlaunanna

Fyrr í dag var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2016. Jón lærði og náttúrur náttúrunnar hlaut tilnefningu í flokknum bækur almenns eðlis. Erum við í Lesstofunni ákaflega stolt og ánægð með þessar fréttir og óskum höfundi okkar, Viðari Hreinssyni, innilega til hamingju með tilnefninguna. Hann á hana svo sannarlega skilið eftir áralanga rannsóknarvinnu.

íslensku bókmenntaverðlaunin

Egill Viðarsson, sonur Viðars, tekur við viðurkenningunni

íslensku bókmenntaverðlaunin

Bækurnar sem voru tilnefndar

lesstofan

Við og Egill

gleðilegt nýtt ár!

Á þessum þrettánda og síðasta degi jóla gefst tími til að setjast niður, sötra kaffi og líta yfir farinn veg. Viðtökur Galdraskræðu voru framar okkar björtustu vonum sem hlýtur að gefa til kynna að útgáfan hafi svalað þorsta Íslendinga eftir heildstæðri og fallegri galdrabók. Aðeins nokkur eintök eru eftir af upplaginu sem gleður okkur mjög enda hafa allir getað nælt sér í skræðu sem vildu.

Þó að þetta verkefni sé nú að baki höfum við á engan hátt sagt skilið við norræna galdra og íslenska galdramenningu. Við munum að sjálfsögðu fylgja bókinni enn frekar eftir og halda áfram að vekja athygli á efni hennar og höfundi. Þar að auki höfum við nú þegar hafist handa við nokkur ný verkefni – sem tengjast Galdraskræðu beint og óbeint – sem munu líta dagsins ljós á komandi ári. Sem fyrr liggur metnaður okkar fyrst og fremst í því að gefa út vandaðar og fallegar bækur til að fegra bókaskápana ykkar enn frekar.

Við viljum þakka öllum vinum okkar og viðskiptavinum fyrir að eiga allan þátt í því að þetta þriðja útgáfuár Lesstofunnar varð eins gott og raun ber vitni. Það er ekki sjálfgefið að lítil bókaútgáfa þrauki svo lengi á þessum markaði. Jafnframt viljum við þakka Arnari Fells Gunnarssyni, hönnuði skræðunnar, og Þórarni Eldjárn, höfund formála hennar, fyrir gott og lærdómsríkt samstarf sem við getum fullyrt að hafi gert okkur að betri útgefendum.

Gleðilegt nýtt ár, kæru vinir!

Lesstofan