Galdraskræða

Viltu læra að vekja upp draug, ná ástum draumastúlkunnar eða hreinlega vernda þig gegn illum öflum? Í Galdraskræðu eftir Skugga, sem var skáldanafn Jochums M. Eggertssonar (1896–1966), er að finna á annað hundrað galdrastafi, auk 13 tegundir málrúna, kenningar þeirra og margskonar galdraletur. Skuggi kvaðst hafa safnað gögnum í mörg ár og eru aðalheimildir hans þrjár fornar skræður sem voru í eigu hans, auk fjölda annarra heimilda sem eru tilfærðar í ritinu.

Galdraskræða kom fyrst út árið 1940 en hefur nú verið endurútgefin af Lesstofunni. Fyrsta útgáfa bókarinnar er öll handskrifuð en í nýrri útgáfu er búið að hreinteikna upp galdrastafi og galdratákn og var sú vinna í höndum Arnars Fells Gunnarssonar. Þórarinn Eldjárn ritar formála bókarinnar þar sem hann greinir frá ævi Skugga og stiklar á höfundaverki þessa sérstæða listamanns. Skuggi hefur verið með öllu gleymdur í íslenskri bókmennta- og listasögu; vert er að veita honum það rými sem honum aldrei hlotnaðist í lifanda lífi.

„Opinber galdraskræða hefur aldrei verið gefin út á landi hér. Nú hefur „Skuggi“ ákveðið að gefa út eina slíka er hann hefur safnað gögnum til í mörg ár. Aðalheimildir eru þrjár mjög fornar skræður í eigu útgefanda, en auk þess mörg hundruð heimildir aðrar, er tilfærðar verða í ritinu. Meðal annars verða sýndar og skýrðar 13 tegundir málrúna ásamt kenningum þeirra, og margskonar galdraletur annað. Þá verða sýndar og skýrðar á annað hundrað táknmyndir (galdrastafir) og hvernig sjá megi aftur í liðinn tíma og fram í ókominn tíma. Loks verða tilgreind gömul læknisráð, fornar sefjunaraðferðir o.m.fl.“

Úr áskrifendabréfi Skugga frá 1940

Upplýsingar um útgáfu:

Útgáfa: 2. útgáfa
Form: Innbundin (uppseld)
Síðufjöldi: 192
ISBN: 978-9935-9089-7-1
Útgáfudagur: 27. september 2013